Innlent

Pólverji á meðal 16 nýnema í lögregluskólanum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nýnemar í lögregluskólanum voru í lögfræðitíma þegar Vísir hitti á þau.
Nýnemar í lögregluskólanum voru í lögfræðitíma þegar Vísir hitti á þau.

Aleksandra Wójtowicz er fyrsti Pólverjinn sem stundar nám í lögregluskóla hér á landi. Aleksandra er þrítug að aldri. Hún fædd og uppalin í Póllandi en hefur búið á Íslandi um árabil. Hún varð íslenskur ríkisborgari árið 2001 og hefur talsvert starfað með lögreglunni á Eskifirði sem túlkur.

Vísir hitti á Aleksöndru og bekkjarfélaga hennar þar sem þau voru í lögfræðitíma í lögregluskólanum. Hópurinn hóf nám þann 9. september síðastliðinn. Þau hafa breiðan bakgrunn, sumir með háskólamenntun á bakinu, aðrir með iðnmenntun. Einnig eru í hópnum ráðgjafi í barnaverndarmálum, tollvörður, fangavörður og íþróttafræðingur. Meirihluti hópsins hefur starfað hjá lögreglunni áður, en þau eru öll sammála um að námið efli þau í daglegu lífi, en styrki þau jafnframt í starfi fyrir lögregluna. Í lögregluskólanum læra þau meðal annars sálfræði, lögfræði og íslensku. „Við lærum líka að mæta fólki á förnum vegi og hvernig við eigum að beita okkur á vettvangi," sagði einn nemandinn í samtali við Vísi. Annar nemandinn bætti við að í lögregluskólanum væri jafnvel kennt að strauja skyrtur.

Nemendurnir sem Vísir ræddi við eru sammála um að starf lögreglunnar sé mjög spennandi. Fjölbreytileiki starfsins sé það sem heilli mest. Aldrei sé hægt að sjá fyrir með einhverri vissu hvað hver vakt beri í skauti sér. Starfið sé því mjög spennandi þó það eigi sér sínar skuggahliðar. Lögreglunámið sé góður undirbúningur til að takast á við skuggahliðar starfsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×