Innlent

Ferðamenn borga mun minna fyrir bjórinn en áður

Bjórverð á Íslandi hefur snarlækkað að undanförnu í samanburði við önnur lönd í kjölfar veikingar krónunnar.

Erlendir ferðamenn kvartar oftar en ekki yfir áfengisverði á Íslandi. Lengi höfðu þeir nokkuð til síns máls enda kom ísland í þessum efnum afar illa út í samanburði við önnur lönd.

Með veikingu krónunnar hefur staðan hins vegar gjörbreyst.

Gefum okkur að hálfur lítri af bjór kosti að meðaltali um 650 krónur í miðbæ Reykjavíkur.

Fyrir ári síðan greiddu danskir ferðamenn um fimmtíu og fjórar danskar krónur fyrir bjórinn. Í dag þurfa þeir aðeins að greiða um 38 danskar krónur. Meðalverð á svipuðum bjór í Kaupmannahöfn er um 45 danskar krónur og því bjórinn á Íslandi orðinn ódýrari.

Norskir ferðamenn sem hingað komu í fyrra greiddu um 57 norskar krónur fyrir bjórinn. Í dag greiða þeir aðeins um 40 krónur fyrir ölið en til samanburðar má nefna að meðalverð á bjór í miðborg Oslóar er fimmtíu og ein norsk króna.

Breskir ferðamenn geta þó enn kvartað því þrátt fyrir að bjórinn á íslandi hafi lækkað úr fimm pundum í fjögur þurfa þeir enn að greiða einu pundi meira fyrir bjórinn hér miðað við meðalverð í London.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×