Innlent

Skoða verði hvort breyta þurfi lögum um hvítabirni

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra telur vert að skoða hvort ekki eiga breyta lögum til að vernda betur þá hvítabirni sem hingað koma.

Á heimasiðu sinni rifjar Össur upp lagasetningu í tengslum við hvítabirni sem hann sjálfur stóð fyrir þegar hann var umhverfisráðherra á árunum 1993 til 1995. Hvítabirnir voru þá friðaðir og aðeins leyfilegt að fella þá ef fólki eða búfénaði stafaði hætta af þeim.

Össur bendir á að sjö árum seinna hafi nýju ákvæði verið bætt inn í lögin þar sem segir að Umhverfisstofnun "megi" fanga hvítabjörn sem hefur gengið á land ef ekki stafar af honum „bráð hætta".

„Nú finnst mér að lögin, sérstaklega eftir breytingu sem gerð var árið 2002, vera óskýr. Ég er þeirrar skoðunar svona í ljósi reynslu síðustu tveggja vikna að það komi sterklega til álita að skoða að breyta lögunum þannig að Umhverfisstofnun hafi ekki bara heimild heldur sé henni beinlínis skylt að freista þess að fanga hvítabjörn og koma í öryggi ef menn telja að það sé ekki bráð hætta af honum.

Hins vegar vil ég alveg undirstrika það mjög skýrt að ég tel það vera fyrsta skylda stjórnvaldsins að vernda mannslíf. Ég tók eftir því á Skaga, þar sem menn eru mann fram að manni vanir hvítabjörnum, þar voru menn ekkert að kippa sér upp við þetta. Ég dáist að þeirra stóíska æðruleysi og stjórnvaldið þarf að hafa sama æðruleysi til að bera," segir Össur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×