Innlent

Hestaníðingur ákærður fyrir barsmíðar

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út kæru á hendur tamningamanni fyrir að hafa barið hross ítrekað með svipu í andlit og fyrir að hafa slegið það með flötum lófa og krepptum hnefa í andlitið og síðuna. Enn fremur fyrir að hafa sparkað í kvið hrossins og sveigt háls hrossins upp að hnakki með taumi svo það gat ekki vikið sér eundan höggum og sparki.

Aðfarir mannsins, sem áttu sér stað í apríl í fyrra, náðust á myndband og var það sýnt í fréttaskýringarþættinum Kompási. Atvikið átti sér stað við bæinn Vatnsenda í Kópavogi og ákvað héraðsdýralæknir að kæra barsmíðarnar sem augljós brot á dýraverndunarlögum.

Lögregla tilkynnti hins vegar í fyrra að maðurinn yrði ekki ákærður þar sem ólíklegt væri að það leiddi til sakfellingar. Þeirri ákvörðun var skotið til ríkissaksóknara sem fól lögreglu að fara aftur yfir málið. Það hefur hún nú gert og ákærir hestaníðinginn fyrir brot á dýraverndunarlögum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×