Innlent

Segir ESB-álitsgjafaelítu ekki í tengslum við raunveruleikann

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að viðbrögð svokallaðrar álitselítu sem sé fylgjandi ESB-aðild við viðtali Stöðvar 2 við Davíð Oddsson seðlabankastjóra í gær sýni hve í litlum tengslum við raunveruleikann þessi elíta sé. Hún kjósi að lifa í eilífum spuna.

Davíð fór í viðtalinu meðal annars hörðum orðum um þá sem vilja taka upp evru og sagði þá lýðskrumara sem hann hefði skömm á og fyrirlitningu.

Björn fjallar um viðtalið við Davíð á heimasíðu sinni og segir það tímabært. „Davíð var ómyrkur í máli um talsmenn evruaðildar og kallaði þá lýðskrumara. Í Kastljósi kvöldsins taldi Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, að Davíð vísaði til framsóknarmanna. Samfylkingin hefði svo lengi haft ESB-aðild á stefnuskrá sinni," segir Björn.

Þá finnst Birni merkilegast hversu fast Davíð kveður að orði um svokallað Íslandsálag á erlend lán sem greiningardeild Glitnis hefði talað um. „Taldi Davíð þetta ósvífinn stimpil á landið, sem ætti það ekki skilið, þegar litið væri til skuldlauss ríkissjóðs. Það væri framganga banka við lántöku, sem leiddi til þessa álags. Þeir ættu ekki að snúa því upp á landið," segir Björn og óskar Stöð 2 til hamingju með að fá Davíð til viðræðu.

„Viðbrögð álitselítunnar með ESB-aðild sem lausn á öllum vanda eru þau, að Davíð sé að kveðja seðlabankann með viðtalinu. Þetta sýnir best, hve þessi elíta er oft í litlum tengslum við raunveruleikann og kýs helst að lifa í eilífum spuna," segir Björn meðal annars um viðbrögð ýmissa bloggara.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×