Innlent

Svipti sig lífi á geðdeild

Karlmaður framdi sjálfsvíg inni á geðdeild Landspítala háskólasjúkrahúss fyrir skömmu. Málið er til skoðunar hjá Landlæknisembættinu en Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir segir ekki hægt að fyrirbyggja öll sjálfsvíg inni á geðdeildum, til þess sé geðlæknisfræðin of skammt á veg komin.

 

 

Þetta mun ekki í fyrsta sinn sem manneskju tekst að binda enda á líf sitt inni á geðdeild. Öll slík tilvik eru send Landlæknisembættinu til skoðunar og við þá athugun er meðal annars kannað hvort nægilegt eftirlit hafi verið með viðkomandi sjúklingi og hvort hann hafi sýnt einhver þau merki sem boðað gætu sjálfsvígshugleiðingar.

 

Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlæknir, segir þó erfitt að meta svona mál því hættumerkin séu ekki augljós og sjúklingar sem eru veikir á geði gjarnan leiknir í að blekkja jafnvel fagfólk. Auk þess geti sjúklingum sem tekið hafa ákvörðun um að binda endi á líf sitt liðið mjög vel - eins og þungu fargi sé af þeim létt.

 

 

Sömuleiðis geti verið örðugt að meta það hvort nægilegt eftirlit hafi verið með viðkomandi sjúklingum. Of strangt eftirlit geti hamlað bata geðsjúkra og eitthvert frjálsræði því stundum nauðsynlegt. Því sé ekki hægt að fyrirbyggja með öllu að sjúklingar inni á geðdeild nái að taka sitt eigið líf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×