Innlent

Minni tekjuafgangur á fyrsta ársfjórðungi í ár en í fyrra

Tekjuafgangur hins opinbera á fyrsta ársfjórðungi nam rúmum 16 milljörðum króna samkvæmt nýrri samantekt Hagstofunnar. Þetta er heldur lakari afkoma en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra þegar hann reyndist 21,5 milljarðar króna.

Sem hlutfall af landsframleiðslu var tekjuafgangurinn 1,2 prósent og sem hlutfall af tekjum hins opinbera 10,2 prósent. Þessi hagstæða afkoma á fyrsta ársfjórðungi skýrist fyrst og fremst af góðri afkomu ríkissjóðs sem mældist 13,5 milljarðar króna en afkoma sveitarfélaganna var einnig viðunandi eða 1,3 milljarðar króna samkvæmt áætlun.

Fram kemur á vef Hagstofunnar að tekjur hins opinbera hafi aukist um rúm þrjú prósent að meðaltali milli ársfjórðunga frá fyrsta ársfjórðungi 2004 á sama tíma og vöxtur útgjalda hefur verið um 2,4 prósent að meðaltali. Til samanburðar hefur neysluverð hækkað um 1,4 prósent að meðaltali milli ársfjórðunga á þessum tíma.

Frá árinu 2006 hefur tekjuvöxtur hins opinbera verið að meðaltali 1,5 prósent milli ársfjórðunga en vöxtur útgjalda 2,8 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×