Innlent

Verkefnaskortur endurspeglast í tilboðum í Landeyjarhöfn

Verkefnaskortur hjá verktökum virðist endurspeglast í óvenju lágum tilboðum verktaka í hafnar- og vegagerð í Landeyjahöfn. Lægsta tilboðið er upp á rúman helming af kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar.

Suðurverk á lægsta tilboðið upp á tæpa tvo milljarða sem er aðeins 60 prósent af áætluðu kostnaðarverði Vegagerðarinnar. Næsta tilboð er 67 prósent, þriðja tæp 74 prósent, það fjórða rúm 80 prósent og fimmta og hæsta tilboðið var upp á rúmlega 89 prósent af kostnaðaráætlun. Það var frá KNH verktökum á Ísafirði og hljóðaði upp á 2,8 milljarða króna.

Lægsta tilboðið er rúmlega milljarði undir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar og hæsta tilboðið er um 400 milljónum undir kostnaðaráætlun. Á þensluskeiðinu síðastliðin tvö ár var allt annað uppi á teningnum. Þá voru tilboð stundum langt yfir kostnaðaráætlun enda var nóg að gera hjá verktökum. Þetta er nákvæmlega sama þróun og hefur orðið á fyrri samdráttarskeiðum í þjóðfélaginu og skapar Vegagerðinni svigrúm til meiri framkvæmda en áætlað var.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×