Innlent

Rúmenar og Þjóðverji dæmdir fyrir milljónakortasvik

MYND/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo Rúmena og einn Þjóðverja í fangelsi fyrir kortasvik og tilraunir til kortasviks hér á landi. Svikin nema milljónum króna.

Um var að ræða tvö mál. Í öðru tilvikinu var Rúmeni ákærður fyrir að hafa í maí síðastliðnum í 29 skipti tekið út samtals 670 þúsund krónur úr hraðbönkum með 19 kortum þar sem upplýsingar, sem hafði verið stolið af kortum annarra, voru notaðar. Þá var hann ákærður fyrir að hafa reynt í nærri 130 skipti að taka út rúma tvær og hálfa milljón króna úr hraðbönkum með 41 korti á sama hátt. Rúmeninn játaði brot sitt fyrir dómi og hlat sex mánaða fangelsi.

Í hinu málinu voru Rúmeni og Þjóðverji ákærðir fyrir sams konar fjársvik en þeir voru gripnir í Leifsstöð þegar þeir voru á leið úr landi með fjármuni. Þeim var gefið að sök að hafa í mars tekið út samtals um 1800 þúsund krónur úr hraðbönkum með tæplega 30 kortum en á þeim voru stolnar upplýsingar frá öðrum kortum. Þá var Þjóðverjanum gefið að sök tilraun til auðgunarbrots með því að hafa reynt að taka út 160 þúsund krónur og þeim báðum að hafa reynt að taka út nærri eina milljón króna, hvort tveggja í hraðbönkum.

Þeir játuðu báðir brot sín og fékk Þjóðverjinn tíu mánaða fangelsi en Rúmeninn sjö mánaða fangelsi. Til frádráttar dómunum þremur koma gæsluvarðhaldsvistir sem þeir sættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×