Innlent

Írskir sjómenn mótmæla innflutningi á fiski frá Íslandi

Írskir sjómenn hafa staðið fyrir mótmælum síðustu daga en þeir eru afar óánægðir með innflutning á fiski frá Íslandi. Þeir hyggja á hungurverkfall á næstunni. 120 sjómenn lokuðu hliði að flugvellinum í Cork á mánudagskvöldið og komu þannig í veg fyrir að flutningabílar kæmust frá flugvellinum með fiskinn.

Flutningabílarnir komust ekki leiðar sinnar fyrr en búið var að tæma þá af fisknum. Í írska blaðinu The Wexford People er greint frá því að innflutningurinn hafi valdið miklu uppnámi í írskum sjávarútvegi. Gagnrýnendur segja að fiskurinn sé veiddur í Suður-Ameríku og fluttur þaðan til Íslands. Þaðan sé hann svo sendur til Írlands og seldur í stórmörkuðum á uppsprengdu verði.

Í greininni er rætt við sjómanninn John Kenny sem tók þátt í mótmælunum. Hann segir að á hverju kvöldi lendi vél frá Íslandi með fullfermi af fiski lendi á flugvellinum í Cork. Hann segir að nokkrir sjómenn hyggi nú á hungurverkfall til að mótmæla innflutningnum. „Við gætum allt eins soltið, því við erum ekki að fá neitt út úr veiðunum," segir Kenny, en til viðbótar við að þurfa að keppa við ódýran innfluttan fisk frá Íslandi er olíuverðið að sliga þá eins og aðra. Nú sé svo komið að 80 prósent af söluverðmæti fisksins fari í olíukaup.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×