Innlent

Fangelsin þétt setin - en sleppur þó

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þeim fer ört fækkandi, tómu fangaklefunum.
Þeim fer ört fækkandi, tómu fangaklefunum.

Fangelsismálastofnun verður ekki í neinum sérstökum húsnæðisvandræðum í fangelsum landsins þrátt fyrir að tíu einstaklingar hafi fengið óskilorðsbundna dóma að öllu eða einhverju leyti í Tryggingastofnunarmálinu sem dómur féll í nýverið.

„Það er ansi þétt hjá okkur og hefur verið og mun verða. En við höfum þessi fimm fangelsi. Þegar menn koma í fangelsi er hver og einn tekinn í viðtal og gerð afplánunaráætlun. Þá vistum við þá eftir aldri, kyni og fyrri störfum skulum við segja. Þeir karlkyns fangar sem eru með mjög langa dóma fara yfirleitt alltaf á Litla-Hraun," sagði Erlendur S. Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun, í samtali við Vísi.

Erlendur sagði dóm í Tryggingastofnunarmálinu ekki svo stóran bita í pott fangelsisyfirvalda. Dómarnir hefðu ekki verið svo langir, utan einn, og þegar fólk fengi stutta dóma mætti það sækja um afplánun í formi samfélagsþjónustu. „Eitt stórt fíkniefnamál skiptir miklu meira máli en þetta. Við þurfum jafnmikið pláss fyrir einn fanga í eitt ár og tólf fanga í einn mánuð, það er lengd dómsins sem skiptir máli," sagði Erlendur enn fremur.

Útlendingafjöldi mesta truflunin

Hann sagði Fangelsismálastofnun vinna eftir boðunarlista sem á væru 120 - 130 manns. Stór hluti þess fólks færi aldrei inn í fangelsi, tæki til dæmis samfélagsþjónustu í staðinn. Einhvern hluta væri verið að eltast við og síðasti hlutinn væri í eðlilegum farvegi.

Útlendingafjöldi er að sögn Erlends mesta truflunin í fangelsismálum síðustu vikur og mánuði. Aldrei sé hægt að reikna út hve margir útlendingar hljóti hér fangelsisdóma á hverjum tíma. Þó sé verið að semja við erlend fangelsisyfirvöld um afplánun í heimalandi: „Ráðuneytið og Fangelsismálastofnun eru að vinna í því og það er til dæmis búið að gera samning við Litháen. En við erum líka að fá Íslendinga í afplánun frá útlöndum, við erum t.d. að fá þrjá eða fjóra frá Danmörku núna," sagði Erlendur að skilnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×