Erlent

Fulltrúar sveitarfélaga í Bretlandi funda með ráðuneyti um íslenska banka

MYND/Reuters

Forsvarsmenn Samtaka sveitarfélaga í Englandi og Wales funda í dag með forystumönnum í breska fjármálaráðuneytinu um þá stöðu sem upp er komin eftir að íslenskir bankar sem störfuðu í landinu hrundu.

Fram kemur á fréttavef BBC að 116 sveitarfélög hafi átt nærri einn milljarð punda inni í dótturfélögum íslenskra banka í Bretlandi en að ekkert sveitarfélaganna þurfi þó að skerða þjónustu sína vegna vandkvæða við að nálgast féð.

Bent er á að bresk stjórnvöld vinni að því að endurheimta eins mikið af fénu og hægt er en Ernst & Young, skiptastjórar Kaupþings í Bretlandi, segja að það muni taka um mánuð að meta hversu mikla fjármuni sé hægt að endurheimta úr félögum Kaupþings. Þeir telji þó góðar líkur á því að það fáist upp í kröfur sveitarfélaganna.

Stjórnvöld í Bretlandi hafa komið á fót viðbragðshópi sem mun aðstoða sveitarfélög ef þau lenda í vanda vegna íslensku bankanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×