Innlent

Borgin lætur taka út kynbundinn launamun

MYND/GVA

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag með öllum greiddum atkvæðum þá tillögu borgarfulltrúa Vinstri - grænna að láta fara fram óháða úttekt á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg.

Í greinargerð með tillögunni er vísað til þess að könnun á vegum stéttarfélagsins SFR sýndi á dögunum að kynbundinn launamunu hjá hinu opinbera hefði aukist. „Sú staðreynd veldur áhyggjum. Hér er lagt til að Reykjavíkurborg sem atvinnurekandi láti fara fram launakönnun hið fyrsta sem varpar ljósi á stöðu starfsfólks borgarinnar hvað þetta varðar. Niðurstaða könnunarinnar verði lögð fram í borgarráði svo fljótt sem auðið er.

Meginmarkmiðið með því að könnunin sé gerð af utanaðkomandi aðila, rannsóknarstofnun eða fyrirtæki er sú að niðurstöðurnar séu sambærilegar þeim sem fram hafa komið í nýlegum könnunum verkalýðsfélaganna.," segir í tilkynningu Vinstri - grænna.

Þá er bent á að verið sé að bæta úrvinnslu þessara gagna í ráðhúsinu á vegum mannauðsskrifstofu í því skyni að upplýsingar sem þessar liggi fyrir. Miklar væntingar séu bundnar við þá vinnu enda muni þær upplýsingar verða gott tæki til að sporna enn frekar gegn kynbundnum launamun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×