Innlent

Bora 50 holur á Hengilssvæðinu á næstu árum

Orkuveita Reykjavíkur og Jarðboranir skrifuðu í dag undir samstarfsssamning um jarðhitaboranir á Hengilssvæðinu sem er sá stærsti sinnar tegundar á Íslandi.

Fram kemur í tilkynningu Orkuveitunnar að framleiðsla raforku í jarðvarmaverum hér á landi hafi rúmlega tvöfaldast frá árinu 2005 og nam nærri 3600 gígavattsstundum á síðasta ári.

Stefnt er að því að hinar nýju boranir á vegum Orkuveitunnar gefi um 40 prósent aukningu til viðbótar. Ætlunin er að bora 50 holur á Hengilssvæðinu, 35 háhitaholur og 15 niðurrennslisholur.

„Undirbúningur framkvæmda hefst nú í september en áætlað er að boranirnar sjálfar hefjist í mars á næsta ári. Borframkvæmdir árin 2009 og 2010 lúta að stækkun Hellisheiðarvirkjunar og byggingu Hverahlíðarvirkjunar," segir í tilkynningu Orkuveitunnar.

Jarðboranir buðu 13,4 milljarða í verkið sem nam um 90 prósentum af kostnaðaráætlun en kostnaðaráætlun ráðgjafa Orkuveitunnar nam 14,6 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×