Innlent

Elín hefði viljað stjórna sameinaðri fréttastofu

Fréttastofur ríkisútvarpsins og sjónvarpsins hafa verið sameinaðar undir stjórn Óðins Jónssonar. Elín Hirst segist hafa viljað stýra sameiginlegri fréttastofu, en ekki fengið. Útvarpsstjóri segir uppsagnir ekki fyrirhugaðar með sameiningunni.

Tilkynnt var um þetta í morgun. Um 80 manns vinna á fréttastofu RÚV eftir sameininguna, en undir hana heyra nú útvarpsfréttir, sjónvarpsfréttir, rúv.is, íþróttir og svæðisfréttir. Fréttastjóri er Óðinn Jónsson sem áður var fréttastjóri Útvarps.

Elín Hirst var fréttastjóri Sjónvarpsins og hún segist hafa viljað stýra sameinaðri fréttastofu. Hún óskar Óðni alls hins besta en segist sjálf hafa viljað taka við starfinu. Aðspurð segist hún sátt við breytingarnar. „En ég var ekki valin og þannig er það bara," sagði Elín. Hún mun þó starfa áfram á RÚV, við fréttalestur og fleira.

Um tíma heyrðu fréttastofur sjónvarps og útvarps undir sameiginlegt fréttasvið en síðustu ár hafa þær verið reknar hvor í sínu lagi. Páll Magnússon útvarpsstjóri segir engar uppsagnir á döfinni, þetta sé ekki sparnaðaraðgerð heldur sóknaraðgerð.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×