Innlent

Lögreglumenn með góð ráð til varnar innbrotum

Undanfarið hefur verið brotist inn í nokkur hús í Grafarvogi að

degi til. Að því tilefni tóku lögreglumenn í hverfinu saman nokkur atriði sem vert er að hafa í huga við innbrotavarnir.

Hér fyrir neðan má sjá þessi góðu ráð.

Hvar er helst brotist inn?

Algengast er að brotist sé inn í sérbýli, rað- og einbýlishús og

einnig íbúðir á jarðhæðum fjölbýlishúsa. Þeir sem að verki eru sjá gjarnan hvort bifreiðar eru í innkeyrslum húsa og jafnvel hringja bjöllu til að athuga hvort einhver sé heima og þykjast síðan hafa farið húsavillt ef komið er til dyra.

Hvernig er farið inn?

Algengast er að farið er inn um opnanlega glugga eða dyr í skjóli

trjáa eða skjólveggja og þá helst að baki húsa.

Hvenær er farið inn?

Nánast undantekningarlaust eiga innbrot á heimili sér stað að degi til, öfugt við innbrot í bifreiðar, á hefðbundnum vinnu- og skólatíma.

Hvað er til ráða?

Huga ber vel að frágangi glugga og dyra sem auðvelt getur verið að

spenna upp ef rifa er skilin eftir á þeim. Hvetjum við nágranna til að tala saman og taka póst hvers annars þegar farið er í frí svo að hann safnist ekki fyrir og verði augljóst merki þess að fólk sé ekki heima. Einnig bendum við á að ráð er að fá nágranna, sem eiga e.t.v. fleiri en eina bifreið, til að leggja bifreiðum í innkeyrslur mannlausra húsa, þegar farið er í frí eða vinnu, svo að það líti út sem einhver sé heima.

Innbrot í bifreiðar:

Skiljið ekki eftir verðmæti á glámbekk í bifreiðum, tölvur, töskur, radarvara, gps tæki né annað því að slíkur varningur freistar þjófa hvað mest.

Upplýsingar: Allar upplýsingar um grunsamlegar mannaferðir geta hjálpað

lögreglu við að koma í veg fyrir afbrot og einnig til að upplýsa afbrot. Verið ófeimin við að hafa samband. Upplýsingar sem fólki kunna að þykja lítilfjörlegar geta orðið til að upplýsa mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×