Innlent

Brjálæði að vilja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni

Danskur arkitekt sem er einn af aðalarkitektum nýja tónlistar- og ráðstefnuhússins í miðborginni, segir brjálæði að vilja Reykjavíkurflugvöll burt úr Vatnsmýrinni. Það sé auðlind út af fyrir sig að hafa flugvöll í borginni og það spari einnig orku.

Það er stundum sagt að glöggt sé gestsaugað, en ekki eru gestirnir alltaf sammála. Þannig unnu skorskir arkitektar samkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar þar sem gert er ráð fyrir því að flugvöllurinn hverfi úr Vatnsmýrinni. Í Lesbók Morgunblaðsins í dag er viðtal við danska arkitektinn Peer Teglgaard Jeppesen ein frægasta arkitekt Dana og hönnunarstjóra arkitektastofunnar HLT í Danmörku. Stofa hans tók þátt í að hanna bæði aðalstöðvar Háskólans í Reykjavík við Öskjuhlíð og nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Reykjavíkurhöfn. Í viðtalinu segir Peer að hann voni að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Það sé auðlind að eiga flugvöll og brjálæði að vilja heldur aka í hátt í tvo tíma til Keflavíkur. Flugvélar muni þróast og þurfa styttri flugbrautir og því gæti flugvallarsvæðið hugsanlega minkað.

Orðrétt segir Peer: „En í framtíðinni væri það styrkur fyrir borgina að hafa flugvöllinn. Þannig má komast á auðveldan og fljótlegan hátt inn í miðborgina." Einnig þurfi að huga að orkunotkuninni og því ekki gáfulegt að láta fólk aka langar leiðir að óþörfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×