Innlent

Ísland úr EES

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður VG.
Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður VG.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri-grænna, veltir því upp í grein í Morgunblaðinu í dag hvort að Ísland eigi að segja sig frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ögmundur veltir fyrir sér hvort að samningurinn hafi ótvírætt verið til góðs. ,,Gæti verið að ruglað hafi verið saman efnahagsuppsveiflu á heimsvísu og meintum jákvæðum áhrifum af þessum samningi?," spyr Ögmundur.

Samkvæmt EES samningnum hafa Íslendingar neyðst til að gera breytingar sem verða ofan á innan Evrópusambandsins að mati Ögmundar. ,,Þar er sífellt verið að þrengja að almannaþjónustunni, naga í hana, búta niður og færa út markaðstorgið að kröfu kræfra fjármálamanna. Þetta viðgengst með fádæma ólýðræðislegum vinnubrögðum í Brussel þar sem pólitíkin, skrifræðið og ,,dómstólar" Evrópusambandsins leggjast á eitt." segir Ögmundur.

Ögmundur segist hafa verið í hópi þeirra sem voru andvígir samningnum um ESS þegar honum var ,,þröngvað í gegnum Alþingi árið 1993." Í lok greinarinnar spyr Ögmundur hvort að Íslendingar eigi að fara að hugsa sér til hreyfings og spyr að lokum: ,,Hvort er mikilvægara lýðræðið eða aðildin að hinu Evrópska efnahagssvæði?"








Fleiri fréttir

Sjá meira


×