Innlent

Rannsókn á Grímseyjarmáli og Byrgismáli lokið í sumar

Brynjólfur Árnason, fyrrverandi sveitarstjóri Grímseyjarhrepps.
Brynjólfur Árnason, fyrrverandi sveitarstjóri Grímseyjarhrepps.

Rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á meintum brotum fyrrverandi sveitarstjóra Grímseyjarhrepps lýkur í þessum mánuði. Þá lýkur rannsókn á efnahagsbrotahluta Byrgismálsins fyrir sumarlok. Þetta segir Sveinn Ingiberg Magnússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá efnahagsbrotadeildinni.

Brynjólfur Árnason, fyrrverandi sveitarstjóri Grímseyjarhrepps, er grunaður um fjárdrátt í opinberu starfi. Grunur vaknaði um athæfið þegar Brynjólfur var dæmdur í héraðsdómi fyrir að hafa stolið nærri 13 þúsund lítrum af olíu til húshitunar í nóvemberr í fyrra. Fljótlega eftir að farið var að skoða bókhald Grímseyjarhrepps vaknaði grunur um stórfelld fjársvik Brynjólfs. Honum var sagt upp störfum sem sveitarstjóra og málið í framhaldi kært til lögreglu.

Að sögn Sveins lýkur rannsókninni í þessum mánuði og þá fer það til saksóknara efnahagsbrotadeildar sem tekur ákvröðun um hvort ákært verður í því. Að sögn Sveins virðast atvik málsins liggja ljós fyrir.

MYND/GVA

Sveinn segir að skýrslutökur standi enn yfir í rannsókn embættisins á meintum efnahagsbrotum í tengslum við rekstur Byrgisins. Hann á von á því að rannsókninni verði lokið fyrir sumarlok.

Ríkislögreglustjóri ákvað að rannsaka málið í kjölfar svartrar skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármál Byrgisins sem birt var í byrjun síðasta árs. Niðurstöður hennar benda til að ólöglega hafi verið staðið að rekstrinum og að fjármunir sem sannanlega hafa runnið til stjórnenda og starfsmanna Byrgisins séu langt umfram það sem fram komi í bókhaldi eða ársreikningum félagsins. Var um tugi milljóna króna að ræða.

Guðmundur Jónsson, fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins, hefur þegar hlotið þriggja ára fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum sem voru skjólstæðingar hans hjá Byrginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×