Innlent

Forsætisráðherra inntur eftir efndum stjórnarsáttmála

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Nú, þegar hátt í helmingur allra ljósmæðra á landinu hefur lagt uppsagnarbréf á borðið og kjaradeila hjúkrunarfræðinga stendur í járnum, vísuðu fréttamenn, sem ræddu við Geir H. Haarde forsætisráðherra í gær, til stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar og ákvæða hans um jafnrétti í reynd.

Þar segir: „Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meirihluta. Stefnt skal að því að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og stjórnunarstöðum á vegum ríkisins." Var Geir inntur eftir því hvort nú væri ekki lag að koma til móts við kvennastéttir á borð við ljósmæður og hjúkrunarfræðinga í ljósi orða sáttmálans. Ráðherra svaraði þá á þá leið að slíkar ákvarðanir væru teknar við samningaborðið og hann væri ekki í samninganefnd. Var ráðherra því næst spurður hvort rétt væri að fjármálaráðherra beitti sér þá fyrir því að ná markmiðum stjórnarsáttmálans og ekki stóð á svarinu, Geir neitaði að ræða málin frekar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×