Innlent

Sólsskinsstundamet í Reykjavík næstum slegið í júní

Pósthússtræti var lokað í júní oftar en einu sinni vegna blíðunnar.
Pósthússtræti var lokað í júní oftar en einu sinni vegna blíðunnar.

Aðeins munaði tveimur góðum sólardögum að rúmlega 80 ára gamalt met yfir sólsskinsstundir í Reykjavík yrði slegið í nýliðnum júní. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um tíðarfar í mánuðinum.

Á heimasíðu Veðurstofunnar kemur fram að 313 sólskinstundir hafi verið í Reykjavík í júní. Þetta er jafnmikið og í júní 1924 en saman eru þessir mánuðir í 2. til 3. sæti sólríkra júnímánaða. Sólskinsstundirnar mældust 338 í júní 1928 þannig að tvo góða sólardaga hefði þurft til viðbótar til að slá það met. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 211 og er það 34 stundum umfram meðallag, álíka og í júní í fyrra.

Veðurstofan segir að norðlæg átt hafi verið ríkjandi í nýliðnum mánuði og veðurlag hafi dregið dám af því. Hlýtt hafi verið á Suður- og Vesturlandi og hiti vel yfir meðallagi. Hiti var lítillega yfir meðallagi við sjóinn á Norðaustur- og Austurlandi en undir því inn til landsins á þeim slóðum.

Meðalhiti í Reykjavík var 10,6 stig og er það 1,6 stigi yfir meðallagi. Þetta er svipaður hiti og var í júní í fyrra. Á Akureyri var meðalhitinn 9,1 stig og er það í meðallagi. Þetta er kaldasti júní á Akureyri frá 2001.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×