Innlent

Lífeyrisþegar fá ákveðna lágmarksframfærslu

MYND/Pjetur

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, undirritaði í dag reglugerð sem tryggir lífeyrisþegum ákveðna lágmarksframfærslu á mánuði.

Eftir því sem segir í tilkynningu ráðuneytisins tekur reglugerðin þegar gildi. Samkvæmt henni fá einstaklingar sem búa einir greiddar samtals 150 þúsund krónur í lágmarksframfærslu á mánuði í stað 137 þúsund króna áður. Eftir breytinguna verður lágmarksframfærslutrygging hjóna 256 þúsund krónur á mánuði í stað 224 þúsund króna áður.

Félagsmálaráðuneytið segir að eftir breytinguna hafi lágmarkstekjur lífeyrisþega ekki verið hærri í 13 ár ef tekið er mið af lægstu launum á vinnumarkaði og nemur hækkunin um 19 prósentum á síðastliðnum níu mánuðum. Lágmarksframfærslutryggingin hækkar árlega á sama hátt og bætur almannatrygginga og verður næsta hækkun 1. janúar 2009. Skal hækkunin taka mið af launaþróun en jafnframt skal tryggt að hækkunin sé aldrei minni en nemur hækkun neysluvísitölu.

Samtals munu rúmlega um 4.000 einstaklingar fá greiðslur á grundvelli reglugerðarinnar. Þar af eru um 2.100 ellilífeyrisþegar og tæplega 1.900 örorkulífeyrisþegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×