Innlent

Taugaveiklunarbragur á ríkisstjórninni

Húsnæðisaðgerðir ríkisstjórnarinnar eru krampakenndar ákvarðanir til að friðþægja háværa hagsmunaaðila, segir Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslyndra. Hann telur að aðgerðirnar viðhaldi þenslunni og lengi í verðbólgunni.

Kristinn tjáir sig um aðgerðirnar í nýjustu færslu á bloggsíðu sinni. Þar segir hann að þegar rýnt sé í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði komi mest á óvart hversu erfitt sé að sjá heildstæða efnahagsstefnu út úr þeim. Hann telur að líklegasta afleiðing þessa útspils verði að lengri tíma taki að ná tökum á verðbólgunni með tilheyrandi kostnaði fyrir skuldug heimili.

Þá segir Kristinn að taugaveiklunarbragur sé á ríkisstjórninni. Mestu skipti að ná jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Með því að dæla fé út í viðskiptabankana muni stjórnvöld hins vegar fjármagna áframhaldandi neyslu, vinna gegn verðlækkun húsnæðis og stuðla að áframhaldandi uppbyggingu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Það viðhaldi þenslu og vinni gegn stöðugleika.

Rúsínan í pylsuendanum, segir Kristinn, er ríkisvæðingin á íbúðalánaútrás viðskiptabankanna. Fróðlegt verði að sjá hvort viðskiptabankarnir kyngi þeim beiska bita. Bönkunum hafi mistekist að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef og nú muni hann endurfjármagna lán viðskiptabankanna með veði í íbúðarhúsnæði.

Kristinn áætlar að sú endurfjármögnun gæti slagað upp í 500 milljarða króna, og ef áætlun ríkisstjórnarinnar gangi eftir verði skyndilega nokkur hundruð milljarða króna í handbæru fé í viðskptabönkunum til ráðstöfunar í almenn útlán án nokkurra skilyrða. Þetta telur Kristinn vísbendingu um að ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi verið tekin í nokkurri taugaveiklun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×