Innlent

Stungið á hjólbarða sjö bifreiða í Reykjanesbæ

Lögreglan á Suðurnesjum kærði í nótt tvo ökumenn fyrir ölvun við akstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá voru tveir aðilar handteknir fyrir óspektir í miðbæ Reykjanesbæjar í nótt.

Þeir voru báðir ölvaðir og hafði annar þeirra að auki lítilræði af fíkniefnum í fórum sínum. Einn maður var handtekinn í heimahúsi vegna líkamsárásar.

Lögreglan á Suðurnesjum segir að töluverður mannfjöldi hafi verið í miðbæ Reykjanesbæjar og nokkrar annir hafi verið hjá lögreglu í tengslum við skemmtanalífið.

Nú í morgunsárið barst lögreglunni svo ábending um að stungið hafi verið á hjólbarða 7 bifreiða við Háaleiti í Reykjanesbæ. Stungið hafði verið á einn hjólbarða hverrar bifreiðar.

Lögreglan biður þá sem upplýsingar geta gefið um þessi skemmdarverk að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420-1800.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×