Innlent

TM styrkir uppbyggingu Þjóðhátíðar eftir eldsvoða

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Sjálfboðaliðarnir við störf.
Sjálfboðaliðarnir við störf.

Tryggingamiðstöðin hefur ákveðið að styrkja aðstandendur Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum til uppbyggingar á þeim mannvirkjum sem skemmdust eða eyðilögðust í eldsvoða í lok maí. Um er að ræða umgjörð Þjóðhátíðar sem haldin er árlega um verslunarmannahelgina í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum.

Stóra og litla sviðið, sem flestum þjóðhátíðargestum ættu að vera að góðu kunn, brunnu í húsnæði sem þau eru geymd í milli þjóðhátíða. Þetta segir Ragnheiður Agnarsdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs TM.

Mannvirkin voru ekki tryggð og því er tjónið sem af hlaust alfarið á kostnað eigenda. TM á djúpar rætur í Vestmannaeyjum og því hefur verið ákveðið að kosta allt efni sem þarf til að endurgera mannvirkin. TM mun einnig aðstoða sjálfboðaliða á vegum ÍBV í Vestmannaeyjum af fremsta megni en í því felst að fyrirtækið greiðir fyrir vinnufatnað sjálfboðaliðanna.

„Stuðningur TM til uppbyggingar á mannvirkjunum skiptir sköpum. Aðstandendur Þjóðhátíðar sem og Eyjamenn eru TM afar þakklátir fyrir framlagið," segir Tryggvi Már Sæmundsson, framkvæmdastjóri þjóðhátíðarnefndar.

„Þjóðhátíð er einn af hápunktum í lífi Eyjamanna ár hvert og skiptir þetta syðsta samfélag Íslands miklu máli. ÍBV hefur veg og vanda af skipulagningu Þjóðhátíðar og er hátíðin afar mikilvæg fjáröflunarleið fyrir félagið," segir Tryggvi enn fremur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×