Innlent

Reynt að ráða starfsmenn Arnarfells til Landsvirkjunar

Landsvirkjun hyggst taka yfir samninga verktakafyrirtækisins Arnarfells vegna framkvæmda við Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar austan Snæfells. Arnarfell hefur verið í fjárhagsörðugleikum undanfarna mánuði og forsvarsmönnum fyrirtækisins tókst ekki að semja við lánadrottna sína á tilsettum tíma.

Arnarfell hefur staðið í ströngu vegna fjárhagsörðugleika síðustu mánuði og hefur skuldastaða fyrirtækisins við Landsbankann verið slæm. Landsvirkjun hljóp undir bagga með fyrirframgreiðslum til fyrirtækisins í júní í fyrra. Þá greiddi Landsvirkjun einnig laun rúmlega fjörutíu starfsmanna í janúar og hluta launa í desember.

Arnarfell hefur unnið að framkvæmdum við Jökulsárveitu og Hraunaveitu Kárahnjúkavirkjunar samkvæmt fjórum verksamningum. Samningsupphæðin er um sex milljarðar króna og er tveimur þriðju hluta verksins lokið. Landsvirkjun sendi frá sér yfirlýsingu í gær um að Arnarfelli hefði ekki tekist að semja við lánadrottna sína.

Sigurður Arnalds, talsmaður Kárahnjúkavirkjunar, segir framkvæmdir hafa tafist um tvær vikur vegna málsins. Samkvæmt ákvæðum verksamninga tekur Landsvirkjun verkið yfir og Arnarfell hættir.

Rúmlega fjörutíu starfsmenn eru á staðnum en engar framkvæmdir standa yfir. Leitast verður við að ráða starfsmenn Arnarfells til Landsvirkjunar svo þeir haldi áfram störfum. Sigurður segir mikilvægt að tapa ekki tíma þar stefnt sé á að tengja Jökulsárveituna við Kárahnjúkavirkjun í sumar. Verklok við Hraunaveitu eru hins vegar áætluð á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×