Innlent

Beðið með að taka ákvörðun um IMF

Engar ákvarðanir munu verða teknar um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr en Árni Mathiesen snýr aftir til baka frá Washington þar sem hann sækir ársfund sjóðsins og Alþjóðabankans. Árni mun þó ekki vera í samningaviðræðum ytra heldur aðeins hitta menn og ræða málin.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Geirs Haarde forsætisráðherra í dag. Hann vísaði því á bug að íslensk stjórnvöld hafi hafnað aðstoð frá sjóðnum. Hann sagði málið enn til athugunar og áður en ákvörðun yrði tekin um beiðni um aðstoð þyrfti að leiða í ljós hvaða skilyrði fylgi slíkri beiðni. Erlendur blaðamaður spurði hvort rétt væri að fulltrúar IMF væru farnir af landi brott og sagði Geir það ekki alls kostar rétt. Sumir þeirra væru farnir en aðrir væru enn á landinu til þess að veita ráðgjöf. Þeir Geir og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra voru spurðir að sinni persónulegu skoðun varðandi aðstoð frá IMF og sögðu þeir báðir að ráðamenn gætu ekki haft skoðun á því með eða á móti uns málin skýrast frekar.

Þá var Geir spurður að því ítrekað af blaðamanni Newsweek í Rússlandi hvort aðrar þjóðir hefðu haft samband við Íslendinga í kjölfar þess að sagt var frá láni sem stendur til að taka hjá Rússum. Geir sagðist ekki hafa heyrt frá öðrum þjóðum í þessu sambandi. Hann sagðist þó gera sér grein fyrir að aðrir hafi tekið eftir viðræðum Íslendinga við Rússa og að sumir séu mögulega óánægðir með þá þróun mála. Þetta mál sé hinsvegar á milli ríkjanna tveggja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×