Lífið

Bogi smælar framan í gjaldþrotið

200 milljóna tilboð hvarf. Bogi og Nok á Hliði ekki á leið til Tailands í bráð.
Fréttablaðið/E.Ól.
200 milljóna tilboð hvarf. Bogi og Nok á Hliði ekki á leið til Tailands í bráð. Fréttablaðið/E.Ól.

Bogi Jónsson húsráðandi á Hliði á Álftanesi vakti athygli fyrir nokkru þegar hann var kominn með 200 milljón króna Ebay-tilboð (1,4 milljón dali) í veitingastaðinn og húseignina. „Nei, þetta seldist ekki," segir Bogi.

„Þegar fjölmiðlaathyglin skall á hvarf nú bara tilboðið, sem var frá Íslendingi. Ég hélt það væri ekki hægt að taka tilboð til baka en við nánari athugun er það víst hægt á meðan uppboðið er enn í gangi."

Bogi hafði hugsað sér að borga upp skuldir og hefja nýtt líf í Taílandi með eiginkonu sinni Nok. „Ég var byrjaður að kíkja á sólarvörn og allar græjur," segir Bogi og hlær. „En maður bítur bara í það súra."

Að Hliði hafa Bogi og Nok rekið rómað heimaveitingahús um árabil. „Það er enn þá mjög góður bisness í því og nóg að gera, pantað marga mánuði fram í tímann. Það var bara þetta hryllilega óstöðuga efnahagsástand sem fór með mig."

Bogi hafði ráðist í framkvæmdir, byggt torfbæ og komið upp baðhúsi og nuddstofu fyrir gesti. „Fjármögnunin við það fór langleiðina upp að rauða strikinu, en við óbreytt ástand hefði það sloppið. Þegar óðaverðbólgan byrjaði og gengið féll náðu endar einfaldlega ekki saman, enda lánin bæði á myntkörfu og með verðbótum. Ég sé ekki fram á annað en að bankinn taki þetta bara."

Þótt Bogi sé eitt af mörgum fórnarlömbum kreppunnar er hann ekkert að væla. „Maður ræður kannski ekki mörgu en maður ræður allavega hvort maður fer í gegnum lífið smælandi eða skælandi," segir hann. „Og auðvitað er kreppan ekki alslæm. Við sjáum hvað skiptir mestu máli eftir þetta. Auðvitað voru allir komnir á alltof mikinn sprett. Og það sem við erum að gera hérna er að hægja á fólki, þótt það sé ekki nema í hálftíma."

Og þar til annað kemur í ljós munu Bogi og Nok halda áfram að hægja á fólki. Bogi er meira að segja langt kominn með friðarkúlu sem hann vígir á næstunni. Nánar um það síðar. - drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.