Innlent

Miklar gróðurskemmdir á Akureyri

Björgunarsveitarmenn sinntu tugum útkalla vegna foks á höfuðborgarsvæðinu í nótt, slökkviliðið þurfti að dæla vatni úr tugum húsa, björgunarmenn þurftu að hemja fjúkandi flugvél á Reykjavíkurflugvelli.

Á Suðurnesjum áttu björgunarsveitarmen líka annríkt við að hemja fjúkandi hluti, meðal annars fauk bíll út í skurð og gámur inn á Hafnargötuna í Keflavík. Sömuleiðis var annríki hjá björgunarmönnum á Akranesi , í Borgarnesi, á Rifi og í Ólafsvík flæddi vatn og aur um götur, alveg upp á gangstéttir.

Þjóðvegurinn innst í Ísafjarðardjúpi sópaðist burt á kafla vegna vatnavaxta og er hann lokaður. Laust upp úr klukkan tvö skall á mikið hvassviðri á Akureyri og urðu þar töluverðar skemmdir á trjágróðri. Víða brotnuðu stórar greinar af trjám og sumstaðar klofnuðu þau, og blasir hreinsunarstarf við bæjarstarfsmönnum með morgninum. Sárafá skip eru á sjó, og þá ýmist í vari eða að þau héldu sjó í nótt, meðal annars nokkur flutningaskip suður af landinu.

Samhæfingastöð Almannavarna við Skógarhlíð í Reykjavík var mönnuð um miðnætti til að hafa yfirumsjón með björgunaraðgerðum, en þar luku menn störfum um klukkan fjögur í nótt, þegar það versta var gengið yfir. Þrátt fyrir að vindhraði hafi sumstaðar farið upp undir 40 metra á sekúndu í hviðum, og vatnselgur hafi víða verið mikill, er ekki vitað um slys á fólki, enda sára fáir á ferðinni.Töluvert rignir enn á Suðaustur- og Austurlandi og er skriðuhætta þar, ekki liðin hjá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×