Innlent

Saving Iceland gagnrýna starfsemi REI í Yemen

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Frá aðgerðum Saving Iceland í fyrra
Frá aðgerðum Saving Iceland í fyrra

Umhverfisverndarsamtökin Saving Iceland kasta fram þeirri spurningu í fréttatilkynningu hvort samkomulag Reykjavík Energy Invest við yfirvöld í Yemen um tilraunaboranir á Lesi-fjalli komi blásnauðum almenningi landsins til góða eða verði eingöngu vatn á myllu stjórnvalda sem samtökin segja bæði vera gjörspillt auk þess að ýta undir ójöfnuð stétta landsins sem sé gríðarlegur.

Fulltrúi Saving Iceland hafði samkvæmt tilkynningu samtakanna samband við REI til að grennslast fyrir um verkefnið í Yemen. Mun honum þá hafa verið tjáð að ekki væri um raunverulegt samkomulag að ræða, eingöngu óformlegar viðræður um aðstoð við rannsóknir og engar fjárfestingar. Saving Iceland segja REI hafa í hyggju að verja 300 milljónum króna í jarðvarmaverkefni í Djibouti. Viðmælandi samtakanna hjá REI mun hins vegar, samkvæmt fréttatilkynningunni, hafa neitað að tjá sig frekar um málið þegar spurt var hvort fyrir dyrum stæði að leggja í svipaðar fjárfestingar í Yemen.

„Í Yemen var skrifað undir minnisblað um frekari viðræður milli REI og orkufyrirtækis yemenska ríkisins en í Djibouti hafa tekist samningar um hugsanlega raforkusölu að lokinni hagkvæmniathugun," sagði Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur og REI.

„Í báðum tilvikum er sameiginlegt markmið samningsaðila er að leysa óstöðuga raforkuframleiðslu úr jarðefnaeldsneyti af hólmi með orku frá gufuaflsvirkjunum. Það er í senn umhverfisvænna, áreiðanlegra og miklu ódýrara fyrir almenning, en margir í þessum löndum eiga ekki kost á einföldustu lífsgæðum vegna þess hve rafmagn framleitt úr olíu er dýrt," bætti Eiríkur við.

Djibouti-verkefnið er með þeim hætti að þarna er þjóð sem er að framleiða alla sína raforku með jarðefnaeldsneyti en sér fram á það að fá hugsanlega alla sína raforku frá jarðhita með mjög jákvæðum umhverfisáhrifum. Eins og olíuverð hefur þróast upp á síðkastið má reikna með að þessi orka verði meira en helmingi ódýrari en jarðefnaeldsneytisrafmagnið. Þarna er verið að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. sagði Eiríkur enn fremur.

„Í Yemen er staðan með mjög svipuðum hætti. Þar er rafmagn framleitt með jarðefnaeldsneyti sem heimamenn vilja leysa af hólmi með endurnýjanlegri raforku og sjá ekki síst fram á það að hægt sé að framleiða hana með ódýrari hætti fyrir almenning," sagði hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×