Innlent

Fánum stolið af leiði Jóns Sigurðssonar

Leiði Jóns Sigurðssonar.
Leiði Jóns Sigurðssonar.

Fánar, sem blöktu við hún við leiði Jóns Sigurðssonar í Hólavallakirkjugarði við Suðurgötu, voru horfnir þegar starfsmenn Framkvæmda- og eignasviðs hugðust taka þá niður að kvöldi þjóðhátíðardags. Í fyrstu héldu starfsmenn að einhver misskilningur hefði komið upp en eftirgrennslan leiddi í ljós að fánunum hefði verið stolið.

Sjö íslenskir fánar voru uppi með hefðbundnu sniði. Fimm fánar við leiði Jóns og tveir fánar við inngang í kirkjugarðinn frá Suðurgötu. Samtals sjö fánar sem allir voru horfnir þegar starfsmenn mættu rétt fyrir klukkan ellefu um kvöldið til að taka þá niður.

Þjófnaðurinn hefur verið kærður til lögreglu en þeir sem geta upplýst um hvarf fánanna eru beðnir um að hafa samband við lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×