Innlent

Gagnrýnir umfjöllun um efnahagslíf

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að sér finnist að á stundum sé fjallað um ástand efnahagsmála af léttúð og skilningsleysi. Þetta kom fram í ræðu hans á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins, sem fram fór í dag.

„Þar á ég meðal annars við framgöngu ákveð­inna stjórnmálamanna og fjölmiðla og staðhæfingar um að ekkert sé verið að gera, eins og það heitir. Stundum er talað eins og stjórnvöld ráði yfir töfra­lausn­um sem ekki séu til annars staðar þegar vandinn er aftur á móti sá að alþjóðlegir vindar skekja okkar eigið hagkerfi án þess að við höfum mikið um það að segja. Sann­leikurinn er sá að á vegum ríkisstjórnarinnar, en þó sérstaklega Seðla­bankans, hefur að undanförnu verið unnið baki brotnu að því að greiða úr þeim vanda sem hinar alþjóðlegu aðstæður hafa skapað. Slíkar aðgerðir eru þess eðlis að undirbúningur þeirra tekur langan tíma og ekki er hægt að flytja af þeim fréttir frá degi til dags," sagði Geir.

Geir sagði að mikil opinber umræða gæti verið óheppileg, skapað óraun­hæfar væntingar og þar með jafnvel haft neikvæð áhrif. Stuttar boðleiðir og skjót ákvarðanataka séu óumdeilanlega meðal helstu styrkleika íslensks við­skiptalífs og stjórnsýslu. Þetta geti á hinn bóginn líka verið veikleiki þegar gerð sé krafa um sama hraða í mun stærri kerfum og óþolinmæði ríkti gagnvart lengri boðleiðum og seinvirkari ákvarðanaferlum.

„Neikvætt umtal víða erlendis um íslenskt efnahagslíf og íslenskt bankakerfi, samdráttur í útlánum banka og sparisjóða, mikil lækkun á gengi íslensku krón­unnar og verðhækkun á margvíslegri vöru og þjónustu hefur valdið óróa hér innanlands. Það er skiljanlegt. Hér á landi hefur vaxið úr grasi heil kynslóð at­hafna­manna sem aldrei hefur þurft að horfast í augu við erfiðleika af þessu tagi. Ég trúi því hins vegar að hér sé um tímabundið ástand að ræða því að fjölmargir þættir í íslenskum þjóðarbúskap eru afar jákvæðir hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma," sagði Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×