Innlent

Á slysadeild eftir höfuðhögg í sumarbústað

Karlmaður var fluttur á slysadeild um miðnætti eftir að hann fékk högg á höfuðið.
Karlmaður var fluttur á slysadeild um miðnætti eftir að hann fékk högg á höfuðið. MYND/Guðmundur

Einn var fluttur á slysadeild eftir bílveltu á Bræðratunguvegi um kvöldmatarleytið í gær. Lögreglan á Selfossi var kölluð á staðinn en þrír aðrir voru í bílnum og sakaði þá ekki.

Þá var annar maður fluttur á slysadeild rétt eftir miðnætti eftir að hann fékk skurð á hnakka. Maðurinn, sem er tæplega þrítugur, var í sumarbústað í Úthlíð og datt þegar hann var að standa upp frá borði með þeim afleiðingum að hann fékk högg á höfuðið.

Einn gisti fangageymslur lögreglunnar á Selfossi eftir að lögreglan hafði afskipti af honum þar sem hann var að skemma bíla fyrir utan skemmtistað í bænum.

Að sögn lögreglu var maðurinn, sem er tvítugur, talsvert ölvaður og var að reyna að komast inn í bíla þegar lögregla kom á staðinn. Hann gistir nú fangageymslur og verður yfirheyrður þegar runnið verður af honum.

Lögreglan á Selfossi tók níu fyrir ofhraðann akstur í nótt. Sá sem hraðast ók var á tæplega hundrað og fjörtíu kílómetra hraða. Hann var að aka undir Ingólfsfjalli á vegkafla sem skemmdist í Suðurlandsskjálftanum en hámarkshraði var lækkaður þar í sjötíu eftir skjálftann.

Maðurinn má búast við því að verða sviptur ökuleyfi. Einn var tekinn vegna gruns um að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×