Innlent

Vill opinbera rannsókn á störfum fjármálafyrirtækja

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Bjarni Harðarson er þingmaður Framsóknarflokksins.
Bjarni Harðarson er þingmaður Framsóknarflokksins.

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill að fram fari opinber rannsókn á starfsemi fjármálafyrirtækja undanfarin ár. Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur að sögn Bjarna rætt málið.

,,Ég tala fyrir því að þetta verði rannsakað og öllum steinum lyft í þessum efnum því það er brýnt að engum verði hlíft. Í þessum umskiptum er margt eðlilegt en þarna hafa einnig átt sér stað hlutir sem ég hef efasemdir um að standist bæði út frá viðskiptasiðferði og jafnvel út frá lögum."

Alþingi hefur þau tæki sem til þarf að mati Bjarna til að beita sér í málinu. ,,Þingið getur sett sérstaka rannsókn á fót eða ákveðið að beina því til þar til bærra aðila að taka málið upp."

Bjarni segir að mörg fyrirtæki sem áður hafi verið kjölfestan í íslensku efnahagslífi séu í dag vanbúin til að takast á við þær efnahagsþrengingar sem þjóðin standi frammi fyrir. Þrengingar sem almenningur eigi auðveldara með að bregðast við. ,,Þetta er mjög alvarlegur hlutur og það er vegna þess að menn fóru inn í þessi fyrirtæki og tóku vísvitandi eigið fé þeirra út úr þeim og settu skuldir í staðinn."

Bjarni segir að forystumenn ákveðna fyrirtækja hafa skapað sér ákveðin kjör án þess að sömu kjör hafi boðist öðrum sem hann segir á skjön við eðlilega jafnræðisreglu.

,,Lærdómurinn er að við þurfum miklu öflugra og sterkara fjármálaeftirlit með hlutafjárviðskiptum," segir Bjarni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×