Innlent

Gabbaði slökkvilið að Rósenborg á Akureyri

MYND/KK

Lögreglan á Akureyri handtók í gær karlmann á þrítugsaldri fyrir að gabba slökkvilið að skóla í bænum.

Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar að um sexleytið í gærdag hafi maðurinn hringt í Neyðarlínuna og tilkynnt um eld í Rósenborg sem er gamli barnaskólinn á Akureyri við Skólastíg. Hér er um stórt húsnæði að ræða í íbúðabyggð og var því allt slökkviliðið kallað út. Enginn eldur var hins vegar í húsnæðinu og í ljós kom að um gabb var að ræða.

Lögregla hafði uppi á manninum og játaði hann að hafa staðið á bak við gabbið en gat engar skýringar gefið á athæfinu. Lögregla segir alvarlegt mál að gabba viðbragðsaðila og verður maðurinn látinn svara til saka fyrir athæfið. Þá má búast við að Slökkvilið Akureyrar fari fram á bætur fyrir þann kostnað sem af útkallinu leiddi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×