Erlent

Móðir Shannon fundin sek

Móðir Shannon Matthews, lítillar stúlku sem týndist í tæpan mánuð fyrr á þessu ári, var í dag fundin sek um að hafa rænt dóttur sinni til að hirða fundarlaun fyrir hana.

Karen Matthews, og samverkamaður hennar Michael Donovan voru bæði dæmd fyrir mannrán, ólöglega fangelsun og að hindra framgang réttvísinnar.

Shannon var níu ára þegar hún hvarf á leið sinni til skóla um miðjan febrúar. Saksóknarar sögðu að stúlkunni hafi verið gefin lyf, og líklega hafi hún verið höfð í hálsól í gíslingunni. Á meðan skipulögðu móðir hennar og Donovan, sem var frændi kærasta hennar, hvernig þau ætluðu að koma höndum yfir 50 þúsund punda verðlaunafé sem hafði verið heitið þeim sem gæti vísað á stúlkuna.

Hvarf stúlkunnar vakti mikla athygli á sínum tíma og kom móðir hennar meðal annars fram í fjölmiðlum og grátbað ræningjann að sleppa henni. Viðamikil lögreglurannsókn fór fram sem kostaði milljónir punda. 24 dögum eftir hvarfið kom hún í leitirnar heima hjá Donovan, sem hafði falið hana undir rúmi.

Þau Matthews og Donovan kenndu hvort öðru um glæpinn við yfirheyrslur. Donovan sagði að móðirin hefði boðið honum pening fyrir verknaðinn. Móðirin sagði hinsvegar fyrir dómi að hún hefði ekki haft hugmynd um að dóttir sín hefði verið hjá Donovan og fengið áfall þegar hún fannst þar. Að sögn lögreglu sýndi hún lítil viðbrögð þegar henni var tilkynnt um að dóttir hennar væri fundin, og hafði þeim mun meiri áhuga á að skipta um hringitón á símanum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×