Innlent

Hátt í 50.000 manns á Ljósanótt í gærkvöldi

Talið er að á milli 40 og 50 þúsund manns hafi verið á Ljósanótt í Reykjanesbæ í gærkvöldi þegar flugeldasýning fór fram, að því er Víkurfréttir greina frá.

Eru þetta talsvert fleiri en í fyrra. Flugeldasýningin á Berginu þótti sú glæsilegasta fram til þessa og veður var ákjósanlegt. Heimamenn segja Ljósanótt hafa stimplað sig inn sem veglegustu bæjarhátíð á landinu með þétta dagskrá frá fimmtudegi til sunnudagskvölds.

Tröllin úr Eyjum settu svip á hátíðarsvæðið í gærkvöldi og sögð hafa stolið senunni af Bubba Morthens og EGÓ sem höfðu haldið uppi fjörinu fram að flugeldasýningu. Tröllin tóku síðan þátt í fjörinu eftir sýninguna en þá sló hljómsveitin Buff upp stórdansleik á hátíðarsvæðinu.

Ákveðið var að láta hljómsveit spila að lokinni flugeldasýningu til að jafna streymið í burtu af svæðinu, enda gekk umferðin vel fyrir sig og umferðarhnútar núna þóttu litlir miðað við síðasta ár.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×