Innlent

Færri í atvinnuleit en á sama tíma í fyrra

Færri eru í atvinnuleit nú en á sama tíma í fyrra og enn vantar fólk til vinnu á ýmsum sviðum. Þetta segir framkvæmdastjóri Capacent ráðninga sem á ekki von á að atvinnuleysitölur hækki hratt á næstunni.

Þrátt fyrir fréttir af samdrætti hjá fyrirtækjum og uppsagnir eru enn margir tilbúnir að ráða fólk í vinnu. Þannig eru fjöldi atvinnuauglýsinga bæði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í dag. Hjá ráðningarskrifstofum segja menn enn töluverða eftirspurn eftir fólki á ýmsum sviðum eins og verkfræðingum og vélstjórum svo eitthvað sé nefnt.

Gunnar Haugen, framkvæmdastjóri Capacent ráðninga, segir svipað marga vera að ráða fólk og á sama tíma í fyrra en hins vegar séu færri að leita sér að starfi. Hann telur fólk varfærara en áður vegna þess hvernig ástandinu hefur verið lýst. Fólk sé því síður að hugsa um að skipta um starf og það vilji frekar hafa starf en taka áhættu.

Gunnar á ekki von á því að atvinnuleysi aukist hratt á næstunni. Fjármála- og byggingarfyrirtæki séu að fara harðast út úr ástandinu. Í fjármálageiranum sé að mestu búnið að gera þær ráðstafanir sem menn ætli sér þar að gera. Hjá byggingarfyrirtækjunum séu stór hópur þeirra sem missir vinnuna erlent verkafólk. Það fari frekar heim en að vera hér á landi á atvinnuleysisbótum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×