Innlent

Vinir Tíbets mótmæla í sjöunda sinn

Frá mótmælum Vina Tíbets við kínverska sendiráðið
Frá mótmælum Vina Tíbets við kínverska sendiráðið

Félagið Vinir Tíbets mættu í sjöunda sinn fyrir utan kínverska sendiráðið í dag. í tilkynningu frá félaginu segir að þeim eina og hálfa mánuði sem liðinn er síðan þau hófu aðgerðir hafi lítið gerst hjá ráðamönnum landsins.

Hér að neðan má sjá tilkynninguna frá félaginu:

Ályktun Vina Tíbets eftir samstöðufund fyrir utan kínverska sendiráðið laugardaginn 19. apríl 2008



Í dag mættum við í sjöunda sinn fyrir utan kínverska sendiráðið. Á þessum eina og hálfa mánuði sem hefur liðið síðan við hófum aðgerðir hefur lítið gerst hjá ráðamönnum landsins nema að við erum nokkuð nær því að vita afstöðu þeirra sem stýra landinu. Einn ráðherra hefur gefið skýr skilaboð og svarað bréfi okkar, ekki aðeins í orði heldur einnig í verki.

Aðspurður af fréttamanni hvort að það gæti ekki spillt viðskiptahagsmunum á milli þjóðanna ef hann talaði um ástandið í Tíbet við kínverska ráðamenn, hvað Viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, að hann mæti mannréttindi ofar viðskiptahagsmunum. Þessu fögnum við og vonum að hann standi við stóru orðin.

Málefni Tíbets var rætt í Utanríkisnefnd og lét Steingrímur J. Sigfússon bóka nokkur mikilvæg atriði sem gætu stuðlað að mannréttindum í Tíbet. Þessi fundur var haldinn 26. mars en illa hefur gengið að fá annan fund út af þessu máli og engar ályktanir verðið gefnar út.

Þrír þingmenn svöruðu ákalli okkar til þingheims og var því öllum þingmönnum sent annað bréf í gær þar sem ítrekað var mikilvægi þess að gera sjálfa sig meðvitaða um stöðuna í Tíbet og kallað eftir aðgerðum.

Viðbrögðin hafa verið mun betri í þetta sinn, um tuttugu hafa svarað og þar á meðal ráðherrar. Það vakti þó furðu okkar að Menntamálaraðherra virðist ekki hafa neinn hug á að ræða málefni Tíbet, samkvæmt bréfi hennar til okkar, þegar hún fer til Kína til að taka þátt í Ólympíuleikunum sem eru víst orðnir algerlega lausir við alla pólitík.

Við fögnum því en minnumst þess að sama skapi að kínversk yfirvöld hafa sniðgengið Ólympíuleikana all oft í pólitískum tilgangi. Við viljum líka minna á að hlaup með Ólympíukyndilinn á rætur sínar að rekja til annars leiðtoga sem sagði að Ólympíuleikarnir væru ekki pólitískur gjörningur, en sá leiðtogi hét Hitler.

Við ætlumst ekki til að íþróttamenn okkar sleppi því að taka þátt í Ólympíuleikunum en betra væri að ráðamenn okkar sem ætla sér að mæta geri grein fyrir því, hvort þeirra för verði aðeins til skemmtunar eða hvort að þeir ætli að nota hana til að þrýsta á kínversk yfirvöld varðandi mannréttindi.

Við höfum komið með fjölmargar tillögur hvernig við getum gert eitthvað sem þjóð til að verða við hjálparkalli Tíbeta. Við skorum hér með á að þverpólitísk samstaða náist um það að við bjóðumst til að halda fyrstu samræðurnar á milli Dalai Lama og kínverskra yfirvalda. Væri það mjög í anda þeirrar ímyndar sem forsætisráðherra vill að þjóðin verði markaðssett sem, þ.e.a.s. Friðarþjóðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×