Erlent

Hlaup með ólympíueld í Argentínu gekk vel

Greiðlega gekk að hlaupa með ólympíueldinn um götur Buenos Aires í Argentínu í gærkvöldi. Mótmælendur voru þó mættir til borgarinnar til að vekja athygli á aðgerðum Kínverja í Tíbet, en Ólympíuleikarnir verða haldnir í Peking í ágúst.

Öryggisgæsla meðfram hlaupaleiðinni var mikil í gær og því áttu mótmælendur ekki greiða leið að hlaupurum. Þetta er í fyrsta sinn í tæpa viku sem hlaupið er með kyndilinn án mikilla vandkvæða.

Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, er staddur í Bandaríkjunum. Í viðtali við NBC sjónvarpsstöðina sagðist hann ekki styðja þá kröfu að Ólympíuleikarnir yrðu sniðgengnir vegna ástandsins í Tíbet. Hann bætti því við að þjóðarleiðtogum væri auðvitað í sjálfsvald sett hvort þeir mættu á opnunarhátíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×