Innlent

SUS mótmælir aldurstakmarki á Írskum dögum

Frá Írskum dögum á Akranesi í fyrra.
Frá Írskum dögum á Akranesi í fyrra. MYND/Skessuhorn.is

Samband ungra sjálfstæðismanna, SUS, ætlar að boða til mótmælafundar á morgun, föstudaginn, fyrir framan bæjarskrifstofur á Akranesi. Ástæðan er sú ákvörðun bæjaryfirvalda að meina barnlausu fólki á aldrinum átján til 23. ára um aðgang að tjaldsvæðum bæjarins á Írskum dögum.

Að mati SUS byggir ákvörðunin ,,á fordómum í garð ungs fólks, hún mismunar fólki eftir aldri og fjölskyldumynstri, hún er í engu samræmi við þau markmið sem henni er ætlað að ná fram, hún eykur gremju og reiði ungs fólk í garð laga og reglna samfélagsins, og fælir auk þess ungt fólk frá skipulögðu skemmtanahaldi þar sem reynt er að tryggja öryggi og læknisaðstoð."

SUS ætlar ekki að láta staðar numið eftir mótmælin því sambandið hefur látið gera boli þar sem ákvörðuninni er mótmælt með nýju merki baráttunnar. Einnig hefur verið ákveðið að kæra Akranesbæ og önnur sveitarfélög sem setja sambærilegar kærur til Umboðsmanns Alþingis og verður sú kæra lögð fram eftir helgi. Þá mun SUS setja á fót svartan lista yfir þau tjaldstæði sem mismuna fólki efir aldri sem verður aðgengilegur á heimasíðu félagsins, sus.is, segir í tilkynningu sambandsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×