Innlent

Mikill samdráttur í sölu lúxusbíla

MYND/GVA

Verulegur samdráttur hefur orðið á sölu lúxusbifreiða eftir því sem segir í tilkynningu Brimborg til fjölmiðla. Þar segir enn fremur að samkvæmt nýskráningum Umferðarstofu í í júní hafi Volvo verið söluhæsta lúxusbifreiðin þrátt fyrir nærri þriðjungs samdrátt frá sama tíma fyrir ári. Ástæðan sé sú að salan á volvo hafi dregist mun minna saman en á öðrum merkjum.

„Tölurnar bera þannig með sér umtalsverðan samdrátt eða allt upp í 100% eins og reyndin varð hjá Porsche. Þá minnkaði sala á BMW um 65% og á Audi og Mercedes Benz um u.þ.b. 70%. Á sama tíma nemur heildarsamdráttur í bílasölu rúmum 14% í mánuðinum og um 16% það sem af er árinu,“ segir í tilkynningunni.

Þar kemur enn fremur fram að bílasala virðist því vera að dragast hraðar saman í dýrari merkjum en á almenna bílamarkaðnum. Bent er á að sala á Land Rover hafi aukist um 42,5 prósent í mánuðinum miðað við sama tíma í fyrra eða úr 26 í 37 bíla. „Mikil sala til bílaleiga gæti þó skekkt sambanburðinn á milli ára, en af þeim 1991 bíl sem seldist í mánuðinum var um 1445 bílaleigubíla að ræða,“ segir enn fremur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×