Innlent

Deiliskipulag á Pósthúsreit samþykkt í borgarráði

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag deiliskipulagsbreytingu á skipulagi Kvosarinnar varðandi svokallaðan Pósthússtrætisreit. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Þar segir að í kjölfar brunans í miðbænum á síðasta ári hafi verið ráðist í hugmyndaleit fyrir svæðið sem nú hafi verið færð í deiliskipulagstillögu. Pósthússtrætisreiturinn, sem er einn elsti hluti Kvosarinnar, afmarkast af Pósthússtræti, Skólabrú, Lækjargötu og Austurstræti. „Mesta breytingin verður í bakgörðum húsanna á reitnum, en þeir eru skipulagðir sem ein heild með gönguleið í gegnum miðjan reitinn frá Austurstræti til Skólabrúar og tengingum út í Lækjargötu og Pósthússtræti. Skjólgóð almenningsrými verða til með torgi á bak við Jómfrúna auk þess sem einn elsti garður landsins, Landfógetagarðurinn, verður endurvakinn og gerður aðgengilegur fyrir almenning," segir í tilkynningu borgarinnar.

Þar er einnig bent á að mörg húsanna á þessum reit hafi mikið menningar- og byggingarsögulegt gildi. Hér er átt við hús eins og Apótekið og Hótel Borg, sem teiknuð eru af Guðjóni Samúelssyni, auk þess sem reiturinn hafði að geyma eina elstu götumynd borgarinnar; Austurstræti 20-22 og Lækjargötu 2, en tvö síðarnefndu húsin brunnu síðasta vetrardag, 18. apríl 2007.

„Markmið deiliskipulagsins er að sýna byggingararfinum þann sóma sem honum ber en aðlaga húsin jafnframt að nútímaþörfum eins og hægt er. Miðað er við að gömlu húsin verði færð til eldra horfs eða lagfærð. Miklar kröfur eru gerðar til hönnunar og um frágang. Einnig er gert ráð fyrir því að Nýja Bíó verði endurreist á svipuðum stað og það áður stóð," segir enn fremur í tilkynningu borgarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×