Innlent

Segir Svandísi Svavarsdóttur vera að skjóta sig í fótinn

Marta Guðjónsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menntaráði borgarinnar, segir að Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri - grænna, sé að skjóta sig í fótinn með því að segja að ekki hafi áður komið fyrir að meirihluti í borgarstjórn hafi verið í minnihluta í ráðum borgarinnar.

„Það er auðvelt að sjá með því að fletta fundargerðum til dæmis í samgönguráði. Það kom oft fyrir að þáverandi meirihluti R-listans var í minnihluta á fundum þess ráðs," segir Marta Guðjónsdóttir. „Og til að herma orð Svandísar upp á hana sjálfa hefur R-listinn því oft verið óstarfhæfur með þessum hætti."

Marta segir hvað fundinn í menntaráði varðar hafi meirihlutinn ekki verið í minnihluta heldur hafi verið jöfn staða þar sem fulltrúi Framsóknar er áheyrnarfulltrúi og hefur ekki atkvæðarétt.

„Við töldum enga ástæðu til að kalla inn varamann fyrir aðalfulltrúa hjá okkur sem forfallaðist skömmu fyrir fundinn," segir Marta. „Það var vegna þess að um stuttan fund var að ræða og þverpólitísk samstaða um umræðuefnið sem var skólastarf í Hvassaleitisskóla."








Tengdar fréttir

Minnihlutinn í meirihluta

Fulltrúar minnihlutans í skipulagsráði Reykjavíkur voru í meirihluta á fundi ráðsins í morgun. Hanna Birna Kristjánsdóttir og Snorri Hjaltason, varamaður Gísla Marteins Baldurssonar, voru þau einu sem mættu á fundinn frá meirihlutanum. Ólöf Guðný Valdimarsdóttir, fyrrum aðstoðarmaður borgarstjóra, og Kristján Guðmundsson voru fjarverandi. ,,Ég minnist þess ekki að þetta hafi komið fyrir áður," segir Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri-grænna, sem sat fundinn í morgun. ,,Þetta er til marks um það að meirihlutinn er ekki með hlutina á hreinu frekar en fyrri daginn." Björk Vilhelmsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Stefán Benediktsson sátu fundinn fyrir minnihlutann.

100% mæting hjá meirihlutanum

Fundur borgarráðs Reykjavíkur stendur yfir og er 100 prósent mæting hjá fulltrúum meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-lista. Vísir greindi frá því í gær að minnihlutinn var í meirihluta á fundum samgönguráðs og menntaráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×