Skoðun

Skorað á ráðherra – heilsuverndinni til heilla

Þórunn Ólafsdóttir skrifar

Mæðravernd, ung- og smábarnavernd, skólaheilsugæsla, og heilsuvernd aldraðra er sú starfsemi heilsugæslustöðva sem flokkast undir heilsuvernd. Heilsuverndin hefur það að markmiði að fylgjast með og efla heilsu einstaklinga og fjölskyldna. Hún skipar stóran sess í lífi Íslendinga og hefur gert það svo áratugum skiptir. Þjónustan fer hljótt en á þó stóran þátt í að heilsufar Íslendinga er jafn gott og raun ber vitni. Að öðrum stéttum ólöstuðum hafa hjúkrunarfræðingar staðið vörð um þessa þjónustu. Þeir hafa borið hita og þunga af starfseminni, ásamt því að þróa og aðlaga þjónustuna að samfélaginu hverju sinni.

Nú eru tímamót í heilsugæslunni. Það á að auka fjölbreytileikann í rekstri. Hvað þýðir það? Hver er framtíðarsýnin? Eru þetta endalok heilsugæslunnar í núverandi mynd? Og hversu mörg rekstrarform er skynsamlegt að hafa í jafn litlu samfélagi og Ísland er? Við gleymum því stundum að Ísland er álíka fjölmennt og þokkalega stórt bæjarfélag í nágrannalöndunum.

Nýlega var undirritaður samningur milli heilbrigðisráðherra og Læknafélags Íslands um þjónustu heimilislækna á læknastofum utan heilsugæslustöðva. Með þessum samningi er heimilislæknum gefinn kostur á því að reka sínar eigin heimilislæknastöðvar og sinna þar meðal annars ungbarna- og mæðravernd. Samningurinn er eins og blaut tuska í andlit hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem hafa byggt upp og þróað heilsuverndina. Þó svo að í samningnum standi að á heimilislæknastöð skuli að jafnaði starfa hjúkrunarfræðingur þá starfar hann á ábyrgð heimilislæknisins. Hjúkrunarfræðingar og læknar eru samstarfsfólk sem vinnur þverfaglega að lausn verkefna. Hjúkrunarfræðingar hafa hingað til ekki starfað á ábyrgð lækna. Einnig má nefna að í samningnum er hvergi minnst á ljósmæður og hver á þá að sinna mæðraverndinni?

Þessi samningur milli heilbrigðisráðherra og Læknafélagsins er hjúkrunarfræðingum heilsugæslustöðva mikið áhyggjuefni. Í honum er heilsuverndin ekki metin að verðleikum og hætta er á að uppbygging hennar og framgangur verði ekki sem skyldi. Undanfarin ár hafa hjúkrunarfræðingar í heilsugæslu unnið ötullega að því að samræma aðgerðir sem snúa að gæðum og skilvirkni í heilsuverndinni. Þar má nefna mikla uppbyggingu og samræmingu í heilsueflingu skólabarna á landsvísu, ungbarnaverndin er að taka miklum breytingum og mæðraverndin hefur verið efld til muna á hverri heilsugæslustöð. Ætla má að þessir þættir falli vel að framsækinni heilsustefnu núverandi ráðherra.

Þetta vilja hjúkrunarfræðingar og ljósmæður í heilsugæslu standa vörð um og fá metið að verðleikum.

Ef ný rekstrarform er það sem koma skal í heilsugæslunni verður að gæta þess að taka tillit til allra þátta. Til að geta áfram staðið vörð um heilsuverndina skorum við á ráðherra að semja við hjúkrunarfræðinga í heilsugæslu um að leiða heilsuverndina og tryggja þannig faglega uppbyggingu hennar með þarfir notenda að leiðarljósi og um leið styrkja stöðu þeirra hjúkrunarfræðinga sem sérhæfa sig í heilsuvernd Íslendinga, þjóðinni til heilla.

Höfundur er framkvæmdastjóri hjúkrunar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.




Skoðun

Sjá meira


×