Innlent

Magnús: Ingibjörg er slappur leiðtogi

Magnús Stefánsson er þingmaður Framsóknarflokksins.
Magnús Stefánsson er þingmaður Framsóknarflokksins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, er slappur leiðtogi, að mati Magnúsar Stefánssonar þingmanns Framsóknarflokksins.

Magnús gerir Samfylkinguna og formann flokksins að umfjöllunarefnir í nýlegum pistli á heimasíðu sinni sinni. Hann segir að Ingibjörg láti lítið sjá sig í þingsal og þegar hún mætti í gær hafi hún haft lítið fram á að færa.

,,Framganga formanns Samfylkingarinnar á Alþingi í morgun var vægast sagt ömurleg, enda í samræmi við stöðu þeirra mála sem um var rætt," segir Magnús en fyrirhugað álver á Bakka og kjaradeila ljósmæðra var meðal annars til umræðu.

Magnús segir aðkomu Samfylkingarinnar að hugsanlegt Bakkaálver verða til stór tjóns fyrir alla viðkomandi aðila. ,,Sú framganga ber glöggt merki um það hve sundraður flokkurinn er og að liðið sem skipar fylkinguna kemur úr öllum áttum ef litið er til gamalla sálugra stjórnmálaflokka. Formaður flokksins vissi greinilega ekki í hvorn fótinn hún átti að stíga á Alþingi í morgun, hún var greinilega ekki tilbúin til að höggva á hnútinn og kveða upp úr um stefnu flokksins í málinu," segir Magnús.

Pistli Magnúsar er hægt að lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×