Innlent

Tækifæri til samdráttar í opinberum umsvifum ekki nýtt

Erlendur Hjaltason er formaður Viðskiptaráð.
Erlendur Hjaltason er formaður Viðskiptaráð. MYND/Anton

Þrátt fyrir að tekjur hafi aukist mikið hafa stjórnvöld ekki nýtt tækifærið til að draga hlutfallslega úr umsvifum hins opinbera og létta á framleiðsluspennu. Með því hefði verið létt verulega á viðvarandi framleiðsluspennu síðustu ára og svigrúm til útgjaldaaukningar samhliða efnhagssamdrætti væri mun meira.

Þetta segir í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs Íslands sem nefnist Útþensla hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur. Segir Viðskiptaráð að vegna þessa megi búast við að verulega sverfi að í fjármálum hins opinbera næstu ár.

Ráðið segir að útþenslu hins opinbera megi fyrst og fremst rekja til skorts á aga og skýrri stefnu hvað varðar þjónustuframboð hins opinbera. Á sama tíma hafi illa gengið að halda aftur af launaskriði og því hafi útgjöld til launagreiðslna vaxið mjög hratt.

„Verði þróun í útgjöldum hins opinbera ekki snúið við mun það vafalaust draga verulega úr samkeppnishæfni Íslands á komandi árum. Þróun hérlendis er á skjön við aðrar þjóðir innan OECD. Af þessum sökum hefur Ísland færst mun ofar á lista yfir þau OECD ríki þar sem hlutfallsleg útgjöld eru hæst og stefnir enn hærra að öðru óbreyttu. Því meiri sem opinber umsvif eru, þeim mun minna svigrúm er til staðar fyrir starfsemi einkaaðila.

Framleiðnivöxtur, sem er grundvöllur langtímahagvaxtar, er meiri innan einkageirans heldur en hjá hinu opinbera. Það er því grunnforsenda langtímahagsældar að kraftar einkaframtaksins séu nýttir til hins ítrasta. Með þetta í huga ættu stjórnvöld að stefna að því að draga hlutfallsleg útgjöld saman um fimmtung og skipa sér þannig í hóp samkeppnishæfustu þjóða heims, s.s. Ástralíu, Írlands, Sviss og Lúxemborgar," segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×