Innlent

Reykjavíkurflugvöllur of dýr fyrir Fljúgandi virkið

Fljúgandi virkinu Liberty Belle seinkar um einn sólarhring og er nú áformað að þessi fornfræga sprengjuflugvél lendi í Keflavík upp úr hádegi á morgun. Hætt var að við lenda í Reykjavík vegna þess að bensín og afgreiðslugjöld þóttu of dýr þar.

B-17, oftast nefnd Fljúgandi virki, er talin frægasta sprengjuflugvél seinni heimstyrjaldar. Hún millilenti á Reykjavíkurflugvelli í byrjun mánaðarins á leið sinni frá Bandaríkjunum til Bretlandseyja og var áformað að hún kæmi aftur við í Reykjavík í dag á bakaleiðinni. Nú er gert ráð fyrir að hún komi til Íslands á morgun, miðvikudag, og lendi þá á Keflavíkurflugvelli. Ástæða þess að hætt var við að lenda í Reykjavík og Keflavík valin í staðinn er sú, að sögn Rays Fowler, flugstjóra vélarinnar, að þar bauðst lægra eldsneytisverð og afsláttur af afgreiðslugjöldum, en einnig séu þar lengri flugbrautir.

Fowler flugstjóri kveðst gera ráð fyrir að lenda í Keflavík um eittleytið á morgun en það ráðist þó af veðri. Áhöfnin gistir eina nótt hérlendis og áætlar að halda áfram för vestur yfir haf snemma á fimmtudagsmorgun. Flugvélin var í Coventry í morgun en hún hefur verið á sýningarflugi um Bretlandseyjar. Almenningi þar býðst að kaupa sér hálftíma flugferð með vélinni, sem tekur allt að sjö farþega, en þannig er rekstur hennar meðal annars fjármagnaður. Seinkar Íslandsferð vélarinnar um einn dag vegna þess að hún fékk fleiri verkefni við slíkt útsýnisflug en áætlað var.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×