Innlent

Sveitarfélög geta keypt nemakort í strætó

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.
Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs.

Sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins og standa utan byggðarsamlagsins Strætó bs. geta nú í fyrsta skipti sótt um að kaupa nemakort fyrir þá íbúa sína sem stunda viðurkennt nám á framhalds- eða háskólastigi á höfuðborgarsvæðinu.

Tillaga þessa efnis var nýverið samþykkt á stjórnarfundi Strætó og var bréf sem kynnir þá ákvörðun sent öllum sveitarfélögum landsins í dag. Hvert nemakort kostar 31.000 krónur og gildir til 1. júní 2009.

Hingað til hefur skilyrði fyrir umsókn um nemakort verið að viðkomandi nemandi sé með lögheimili í sveitarfélagi sem á í samstarfi um nemakortin, þ.e. Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ eða Álftanesi.

„Nemakortin hafa notið vinsælda og því er afar jákvætt að geta nú boðið öðrum sveitarfélögum að taka þátt með þessum hætti. Um leið viljum við leggja áherslu á að þetta verkefni er kostnaðarsamt fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem greiða þessa upphæð, 31.000 krónur, fyrir hvern nemanda sveitarfélagsins sem sækir um nemakort auk þess að niðurgreiða rekstur Strætó bs. almennt. Því er eðlilegt að sveitarfélög sem vilja bjóða nemendum aðgang að nemakortinu taki þátt í að greiða hluta kostnaðarins með þessum hætti," segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×