Innlent

Lögregla leitar enn tveggja vegna hnífstunguárásar

Lögregla leitar enn tveggja Pólverja vegna hnífstunguárásar á landa þeirra við Mánagötu í Norðurmýri á sunnudaginn var. Tveir pólskir karlmenn voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 12. september vegna árásarinnar en lögregla hefur frá því á sunnudag leitað hinna mannanna tveggja.

Fórnarlambið sagði í fréttum Stöðvar 2 að mennirnir hefðu veitt honum áverkana eftir að hann neitaði að hleypa þeim inn í hús sitt en árásarmennirnir munu hafa verið ölvaðir. Hann sagðist jafnframt ekkert þekkja til árásarmannanna.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vildi í samtali við Vísi ekki gefa upp hvort lögregla hefði greinargóða lýsingu á tvímenningunum sem leitað væri. Aðspurður hvort grunur léki á að mennirnir hefðu flúið land sagðist Friðrik enga ástæðu til að ætla það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×